Óvissa, óöryggi, ótti og andlegt sjálfstæði

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, útskýrði á RÚV í morgun hvers vegna hann dró til baka fyrri ákvörðun sína um að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í embætti. Ólafur lýsti því mjög vel hvernig þrýstingur á hann víðs vegar að úr samfélaginu jókst jafnt og þétt þar til ekki var undan vikist.
„… smátt og smátt fór þetta að hlaðast upp dag eftir dag og stundum klukkustund eftir klukkustund …“.

Hann fór einnig vel yfir það hvernig hann las í þau skilaboð sem honum bárust frá ólíklegustu aðilum, einstaklingum og heilu vinnustöðunum.
„… fólk fann til óöryggis og óvissu varðandi það hvað yrði með mikilvægar ákvarðanir ...“.

Ólafur sagði að allt frá því sl. haust hafi fólk verið að koma að máli við hann og biðja sig um að halda áfram í embætti en þá hafi verið annar tónn í fólki en að undanförnu og ekki af sömu ástæðum.
„… þá var ekki í þeim þessi tilfinningalegi þungi, þessi, þessi undiralda óvissu og ótta, beinlínis í sumum tilfellum hræðslu um hvað myndi gerast í okkar þjóðfélagi …“

Ólafur sagði í viðtalinu við RÚV að hann tæki þessa miklu undiröldu í samfélaginu alvarlega og lagði áherslu á að hann myndi leggja mikið á sig til að standast væntingar sem til hans væru gerðar og í því sambandi gera það sem gera þarf.
„Það er nú ekki algengt að ég mæti hérna (RÁS 2) fyrir klukkan átta á morgnana …“

Ólafur Ragnar Grímsson gerði ágætlega grein fyrir þeim kostum sem góður forseti þarf að hafa, líkt og yfirgripsmikla og djúpa þekkingu á stjórnskipan landsins, að geta tekið ákvarðanir með litlum fyrirvara án þess að leita ráða hjá sérfræðingum sem og að fólk ætti að geta gengið að dómgreind og gáfum forseta sem vísum.  
„… hann þarf líka að hafa andlegt sjálfstæði og viljastyrk …“

Það kaupa ekki allir þessar skýringar eins og gengur.