Ófullnægjandi og gagnslitlar upplýsingar um skattaskjól Bjarna

Upplýsingar, ef upplýsingar á að kalla, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sendi frá sé um skattamál sín í dag svara engu sem máli skiptir um skattaskjólsmál ráðherrans. En þær vekja hins vegar upp fleiri spurningar um þau mál.
Í yfirlýsingunni segir að „gerð hafi verið grein fyrir fjárfestingu í Falson & co“ í skattaskýrslu vegna ársins 2006 og síðar í skattframtölum 2010 og 2011. Ekki er í þessari yfirlýsingu að sjá að Bjarni hafi skilað reikningum félagsins til skattsins eins og hann hefði átt að gera heldur gert „grein fyrir því“ með einhverjum óskilgreindum hætti.
Um þessi mál er m.a. fjallað í 57.gr.a í tekjuskattslögum sem og í reglugerð með vísan til þeirra laga, útgefinni af fjármálaráðherra. Miðað við orðalag yfirlýsingar Bjarna hefur hann ekki skilað reikningum félagsins til íslenskra skattayfirvalda sem hann hefði samt átt að gera alveg til þess árs sem félaginu er slitið. Sé það þannig verður það að teljast mjög alvarlegt brot af hans hálfu og óásættanlegt, ekki síst vegna þeirrar stöðu sem hann gegnir nú, þ.e. fjármálaráðherra og æðsti yfirmaður skattamála á Íslandi.
Ef Bjarni Benediktsson ætlar að gera hreint fyrir sínum dyrumverður hann að birta nauðsynleg gögn um málið sem íslensk skattyfirvöld geta sannreynt.
Það hefur hann ekki gert.

Mynd: Pressphoto.biz