Ein af furðufréttum síðustu daga er sú að framsóknarflokkurinn hafi fyrir hönd ríkisstjórnarflokkanna falið Frosta Sigurjónssyni, þingmanni flokksins, að leiða baráttuna gegn skattaskjólum (link is external) og að það skuli hann gera sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins. Enginn þingmaður varði formann flokksins og skattaskjólsmál hans af jafn mikilli ákefð og Frosti. Frosti gerði aldrei neinar athugasemdir við skattaskjól formannsins, þvert á móti taldi hann gerðir hans eðlilegar og löglegar og að formaðurinn hefði gert þjóðinni fulla grein fyrir sínu máli. Það var ekki fyrr en hann komst að því að formaðurinn hafði logið að honum að Frosta var misboðið. En það var ekki vegna þess að þingmanninum þætti neitt óeðlilegt við skattaskjólsmálið, heldur vegna þess að formaðurinn hafði sagt honum ósatt.
Frosti Sigurjónsson er formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem er ein af mikilvægustu nefndum þingsins. Það er álitshnekkir fyrir Alþingi að þingmaður sem hefur tekið jafn afdráttarlausa afstöðu með skattaskjólum skuli í fyrsta lagi gegna þeirri stöðu og í öðru lagi að vera falin rannsókn slíkra mála. Enn sitja tveir ráðherrar tengdir skattaskjólum í ríkisstjórn Íslands, báðir í skjóli Frosta Sigurjónssonar og annarra þingmanna hægriflokkanna.
Ábyrgð Frosta og annarra þingmanna sem varið hafa og verja enn stjórnmálamenn sem tengjast skattaskjólum er mikil. Vilji Frosti Sigurjónsson gera þinginu og stjórnmálunum gott á hann að víkja sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins og íhuga alvarlega að láta af þingmennsku. Annars situr hann þar áfram sjálfum sér og Alþingi til minnkunar.
Það á við um fleiri.