Á ekki að vera svo erfitt

Ein helstu rök hægriflokkanna gegn því að boða til kosninga strax er að framundan séu stór verkefni við losun fjármagnshafta. Þeir halda því fram, og trúa því örugglega sjálfir, að enginn nema þeir geti leitt þau mál og klárað svo sómi sé að. Sem er mikill misskilningur.
Mikilvægast af öllu hvað þetta varðar er eftirfarandi:
a) að um þetta mál sé eins góð pólitísk samstaða og mögulegt er.
b) að pólitískur stöðugleiki sé í landinu
b) að þeir stjórnmálamenn sem höndla með þessi mál njóti trausts og trúnaðar, ekki síst á erlendum vettvangi

Ekkert af þessu er fyrir hendi í dag. Eins og staðan er nú hefur áætlun stjórnvalda misst allan trúverðugleika, jafnt innanlands sem utan, eins og bent er á í ágætri samantekt um þetta mikilvæga mál í Kjarnanum. Þetta ástand er þegar farið að hafa neikvæð áhrif á efnahag landsins eins og lesa má um í lok greinarinnar.
Már Guðmundsson Seðlabankastjóri hefur bent á að það skipti engu máli varðandi útboð á aflandskrónum og losun hafta hvaða stjórnvöld eru í landinu, heldur hitt að um þessi mál sé góð pólitísk samstaða og stjórnvöld séu trúverðug.

Skynsamlegast af öllu væri að stjórnmálaflokkar, allir, gerðu tvennt. Í fyrsta lagi að ná saman um þingmál sem þarf að afgreiða vegna haftamálanna. Í öðru lagi að boða til kosninga sem fyrst. Þannig má annars vegar tryggja eins pólitíska farsæla lausn og mögulegt er á haftamálunum og hins vegar að koma á ró í stjórnmálunum með því að færa kjósendum valdið. Til þess þurfa stjórnmálamenn og flokkar að setja sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar ofar flokkslegum og persónulegum.

Þetta á ekki að vera svo erfitt.