Skrýtin tík pólitíkin

Í Kastljósi gærkvöldsins var m.a. rætt við tvær konur, Unni Brá Konráðsdóttur, þingmanns sjálfstæðisflokksins, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi ráðherra, sama flokks.
Unnur Brá taldi að best hefði farið á því að stjórnmálamenn þvert á flokka hefðu tekið höndum saman um að stjórna landinu fram að kosningum sem ættu að fara fram sem allra fyrst (4:20). Þetta hafi hún viðrað í sínum þingflokki en ekki fengið stuðning.
Þetta er auðvitað alveg hárrétt hjá Unni Brá og var skoðun margra annarra að betur hefði farið á þessu en því sem síðar gerðist. Í því sambandi má benda á að varaformaður Vinstri grænna sagði nákvæmlega þetta í viðtali við fréttamann RÚV (3:30) deginum áður, þ.e. að best hefði farið á því að stjórn og stjórnarandstaða hefði tekið höndum saman við stjórn landsins fram að kosningum. Með þeim hætti hefði mátt skapa skilyrði fyrir því að ná sáttum í samfélaginu um kosningar í sumarlok eða næsta haust. Stjórnarmeirihlutinn á þingi gaf engin slík færi á sér eða leitaði eftir samstarfi enda var enginn vilji til þess af þeirra hálfu eins og Unnur Brá bendir réttilega á.
Þorgerður Katrín nefndi það sérstaklega í Kastljósinu í gærkvöldi að henni fyndist stjórnarandstaðan ekki nægilega ábyrg og hefði farið í „þessa gömlu pólitík“ og stundi „gamaldags pólitík“ sem hún væri þekkt fyrir í stað þess að axla ábyrgð (21:00).
Þetta er pínu hallærisleg og gamaldags pólitík hjá Þorgerði Katrínu og það sem verra er – ekki studd neinum rökum eins og bent er á hér að ofan.
Þorgerði Katrínu til upprifjunar kom upp hugmynd um myndun þjóðstjórnar 30. september 2008, 8 dögum fyrir Hrun. Pælingin var að mynda þverpólitíska stjórn til að reyna að stýra landinu í gegnum Hrunið. Þeirri hugmynd var alfarið hafnað, ekki síst af Þorgerði Katrínu sem taldi þetta hið mesta óráð, aðallega þó vegna þess hvaðan hugmyndin kom. Um þetta má lesa í 7. bindi skýrslu RNA á bls. 69.

Hún er skrýtin tík, pólitíkin.
Stundum gamaldags – stundum ekki.