Uppgjör í framsókn

Ákvörðun framsóknarflokksins að skipa Lilju Alfreðsdóttur sem ráðherra er rothögg fyrir suma þingmenn framsóknarflokksins og áfall fyrir stuðningsfólk flokksins á Akureyri og NA-kjördæmi, höfuðvígi flokksins.
Í fyrsta lagi er tveimur hörðustu ESB andstæðingum úr þingliði flokksins, þeim Ásmundi Einari Daðasyni og Vigdísi Hauksdóttur neitað um ráðherrastól og í þeirra stað búið að plassera utanþingsráðherra sem verið hefur virk í Samtökum Evrópusinna, JÁ Ísland.
Í öðru lagi er framsóknarfólki í NA-kjördæmi, sérstaklega þó á Akureyri, sendur fingurinn með þessari ákvörðun. Höfuðvígi framsóknarflokksins hefur nú engan ráðherra sem ætti að vera Höskuldur Þórhallsson ef allt væri eðlilegt. Formaður framsóknar er ekki síst með þessu að setja ofan í við þá framsóknarmenn þar nyrðra sem kröfðust afsagnar hans vegna spillingar.
Mér segir svo hugur að ekki séu öll kurl komin til grafar og stutt sé í enn frekari uppgjör innan framsóknarflokksins.

Að því sögðu óska ég Lilju Alfreðsdóttur, sem er vel að því komin að taka við ráðherraembætti, alls hins besta í störfum sínum.