Beðið eftir Bjarna

Það er látið líta svo út að það sé í höndum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns annars stjórnarflokksins að úrskurða um hæfi eða vanhæfi forsætisráðherra í kjölfar Wintris- hneykslisins. Líklega vegna þess að forsætisráðherrann virðist ekki vera fær um það sjálfur.
En Bjarni er ekki í neinni stöðu til að setja sig á háan hest. Hann hefur margsinnis tengst fjármálavafstri sem vakið hafa upp spurningar sem aldrei hafa fengist fullnægjandi svör við. Fyrirtæki hans Falson & co sem skráð var á Seychelles-eyjum er bara vond viðbót við annað.
Það er enginn eðlismunur á hans þætti og þætti forsætisráðherra í skattaskjólsmálinu. Báðir gerðu það sama, fóru með peningana sína í gegnum lönd sem eru á lista fjármálaráðuneytisins yfir slík skattaskjól. Og hann sagði ósatt um sín mál rétt eins og forsætisráðherrann. Þetta snýst ekki um upphæðir. Það breytir engu hvort um var að ræða milljón, tugi milljóna eða milljarða. Tilgangurinn var sá sami og er sá sami: Að leyna peningum fyrir íslenskum yfirvöldum.
Bjarni þarf því ekki aðeins að skýra sín mál fyrir þingi og þjóð, hann þarf líka að víkja úr stjórnmálum.
Stjórnmálamenn sem tengjast skattaskjólum eiga ekki að vera í stjórnmálum.
Svo einfalt er nú það.