Það er ekki nóg með að Tortóla sé heimsþekkt skattaparadís heldur er veðursældþar með miklum ágætum. Tortóla hlýtur að koma sterklega til greina sem nýr sumarleyfisstaður fyrir Íslendinga. Tengsl þessara tveggja eyja, Íslands og Tortóla eru sterk og traustari en við flest vissum og því ekki algalið að efla kynni íbúanna og treysta vináttuna.
Það er heldur ekki svo tæknilega flókið að komast þangað en líklega betra að vera með ríflega heimild á kortinu þó ekki væri nema til að komast heim aftur.
Til að komast til draumaeyjunnar má t.d. fara inn á dohop.is sem er í eigu íslenskra athafnamanna og panta þar flug sem kostar aðeins um 135 þúsund krónur. Reyndar frekar langt ferðalag, rétt rúmur sólarhringur, en það er örugglega þess virði. Hótel má svo panta á sömu síðu og styðja um leið við íslenskt – eitthvað.
Ef fólk lendir í vandræðum á Tortóla má svo alltaf banka upp á hjá einhverjum af fjölmörgum fyrirtækjum í eigu Íslendinga sem munu án vafa hjálpa og aðstoða íslenska ferðalanga ef á þarf að halda.
Íslendingar standa alltaf saman þegar á þarf að halda.
Sérstaklega í útlöndum.