Málsvörnin

Málsvörn framsóknarmanna vegna Tortólamáls formanns flokksins er í þremur meginliðum.

1. Formaður flokksins er yfirburðamaður.

2. Enginn núlifandi Íslendingur hefur barist jafn hart fyrir hagsmunum landsins.

3. Gagnrýnendur Tortólamálsins eru þeir sömu og börðust harðast gegn hagsmunum landsins í kjölfar Hrunsins auk þess að vera dónar.

Af þessum þremur ástæðum og reyndar vegna hverrar og einnar fyrir sig, skal formaður framsóknarflokksins að mati stuðningsmanna hans vera undanþeginn almennum siðferðislegum viðmiðum og athafnir hans hafnar yfir eðlilegan vafa. Honum ber því hvorki að upplýsa almenning um hagsmuni sína né samstarfsfólk sitt í stjórnmálum. Hann þarf þess vegna ekki að fylgja alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og hann getur almennt farið sínu fram án athugasemda.
Miðað við orð varaformanns þingflokks framsóknarflokksins eru gerðir og athafnir formanns flokksins fyrirfram hafnar yfir vafa og ástæðulaust að spyrja frekar.
Málsvörnin er því í grunninn sú að sökum gáfna og yfirburða sé formaður framsóknarflokksins undanþeginn hefðbundnu siðferði, engin boð né bönn nái til hans. Hann megi því gera hvað sem honum sýnist og öll gagnrýni sé óréttmæt og af illum rótum sprottinn.

Enn hefur enginn úr fámennu stuðningsliði forsætisráðherra rætt efnislega um málið, þ.e. þá staðreynd að forsætisráðherra flutti ásamt eiginkonu sinni gríðarlegar fjárhæðir frá Íslandi til Tortóla og hélt því leyndu þar til fréttamenn komust að því. Með því hefur hann misboðið samlöndum sínum ásamt því að skaða hagsmuni landsins með beinum og óbeinum hætti og stuðlað að því að viðhalda starfsemi sem vestræn lýðræðisríki hafa reynt að koma í veg fyrir.
Þar með talið lýðveldið Ísland.