Alvarleg staða í íslenskum stjórnmálum

Komin er upp mjög alvarleg staða í íslenskum stjórnmálum. Forsætisráðherra hefur orðið uppvís að því að hafa, ásamt konu sinni, flutt mikla fjármuni úr landi árið 2008 nokkrum mánuðum fyrir Hrun. Það gerðu þau með því að kaupa félagið Wintris Inc. af Landsbanka Íslands en félagið var og er skráð á Tortóla sem þekkt er meðal auðmanna sem skjól undan sköttum í heimalöndum þeirra. Ríflega ári síðar flutti forsætisráðherra eign sína í félaginu yfir á konu sína sem þar með var ein skráður eigandi félagsins samkvæmt upplýsingum sem hún hefur gefið fjölmiðlum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá eiginkonu forsætisráðherra.
Félagið Wintris Inc. varð síðar kröfuhafi í alla íslensku bankana upp á ríflega 500 milljónir króna.
Ekkert af þessu er ólöglegt. Um það hefur enginn efast, mér vitanlega. Enginn þingmaður hefur kallað eftir því að ræða fjármál eiginkonu forsætisráðherra en  óskað hefur verið eftir því að ráðherrann útskýri sín mál fyrir þinginu. Eðlilega.
Það sem er alvarlegt við þetta er að forsætisráðherra hefur leynt þing og þjóð þessum upplýsingum. Hann hefur engum sagt frá hagsmunatengslum sínum við peningafélag í eigu hans og eiginkonu sinnar (síðar alfarið í eigu konunnar), skráðu á Tortóla og að það hafi verið meðal kröfuhafa í bankana. Hann segir sjálfur að það hafi hvarflað að honum að upplýsa allt þetta fyrir kosningarnar 2013 en hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að gera það ekki og halda þessu áfram leyndu.
Það hefur einnig komið í ljós að hann upplýsti ekki sinn nánasta pólitíska samstarfsaðila, fjármálaráðherra og formann sjálfstæðisflokksins um málið. Í þau þrjú ár sem þeir hafa setið saman í ríkisstjórn vissi fjármálaráðherra því aldrei um hagsmunatengsl forsætisráðherra við kröfuhafa í bankana. Á þeim þremur árum hafði forsætisráðherra allar upplýsingar sem varðaði íslenska ríkið varðandi samninga við kröfuhafa og sumar þeirra líklega beint frá fjármálaráðherra. Forsætisráðherra hefur meðvitað í tæp 7 ár haldið þessu leyndu og hafði ekki í hyggju að segja frá. Það var ekki fyrr en fjölmiðlar fóru að spyrjast fyrir að ekki varð lengur undan því vikist að upplýsa um það sem spurt var eftir.
Það er alvarlegt mál þegar forsætisráðherra þjóðarinnar fer á bak við þing og þjóð með framangreindum hætti. Það er alvarlegt mál þegar forsætisráðherra ákveður að færa persónulegar eignir úr landi í þekkt skjól auðmanna á Tortóla. Það er ekki ólöglegt. Það er ekki bannað. Þetta má.
En það er grafalvarlegt þegar forsætisráherra á í hlut og ber að taka því þannig. Og það er alvarlegt þegar forsætisráðherra neitar að gera Alþingi grein fyrir þessum málum sínum.
Af framangreindum ástæðum og mörgum fleirum er komin upp grafalvarleg staða í íslenskum stjórnmálum sem verður að leysa úr.