Fórnarlömb eigin ágætis

Það er nánast hægt að ganga að því gefnu að þeir stjórnmálamenn sem tala mest um að þeir sækist hvorki eftir völdum né áhrifum séu þeir sömu og langar mest allra í völd. Sömuleiðis er það nokkuð tryggt að þeir stjórnmálamenn sem stöðugt reyna að telja öðrum trú um að þeir séu alls ekki ómissandi eru þegar grannt er skoðað á öndverðri skoðun. Þessi tegund stjórnmálamanna lítur á sig sem einhvers konar fórnarlömb eigin ágætis. Þeir bjóða sig fram gegn eigin vilja til að þjóna fjöldanum sem getur ekki hugsað sér að þetta ágætis fólk fari til annarra starfa.
Við Íslendingar höfum eins og aðrar þjóðir átt marga svona stjórnmálamenn og eigum enn. Sem dæmi um það má nefna þrjú merkileg dæmi eins og meðfylgjandi tilvitnanir bera vitni um.

Dæmi 1: „Mig langar ekki að bjóða mig fram aftur. En það verða allir svo reiðir við mig ef ég segist ekki ætla að gera það svo ég verð að sýna lágmarksmeðvirkni í því."

Dæmi 2: „Síðan er höfðað með mjög skýr­um hætti til mín um það að ég geti nán­ast ekki leyft mér að fara af vett­vangi við þess­ar aðstæður. Það er megin­á­stæðan fyr­ir því að ég hefi ákveðið að breyta þess­ari ákvörðun.“

Dæmi 3: ,,Mig langar ekkert rosalega mikið að halda áfram bara til að vera fullkomlega heiðarleg en mér finnst líka óábyrgt að ef við erum í miðri aðgerð og í algerlega allt öðrum aðstæðum en við höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir að þá finnst mér óábyrgt að stökkva frá borði.”

Það hlýtur að vera heppin þjóð sem á fólk sem er tilbúið að fórna sér fyrir hana með þessum hætti þvert gegn vilja sínum.
Eða hvað?