Fjármálaráðherra ber ábyrgð á sínu liði

Í 1.gr. laga um Bankasýslu ríkisins segir m.a: „Bankasýsla ríkisins er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir fjármálaráðherra.“
Í 2.gr. sömu laga segir m.a: „Með yfirstjórn Bankasýslu ríkisins fer þriggja manna stjórn sem fjármálaráðherra skipar.“
Í 4.gr. laganna segir m.a. um verkefni stofnunarinnar: „Að sjá um samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið á eignarhluti í og tengjast eigendahlutverki þess.“

Af þessu má vera ljóst að fjármálaráðherra er æðsti yfirmaður Bankasýslu ríkisins og þar með Landsbankans sem er í 98% eigu ríkisins. Ég er sannfærður um að fjármálaráðherra hefur ekki beitt sér fyrir því að ættmönnum hans var seldur hlutur ríkisins í Borgun. En það breytir því ekki að ráðherrann ber ábyrgð á málinu og þarf að axla þá ábyrgð. Skiptir þar engu um hvort stjórnendur Landsbankans muni víkja vegna Borgunarmálsins eða ekki.
Fjármálaráðherra ber ábyrgð á sínu liði.