Alvarlegar ásakanir Vigdísar Hauksdóttur

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður framsóknarflokksins, kemst upp með það svo til óáreitt að saka fólk, einstaklinga eða hópa fólks um alvarlega glæpi og slæleg vinnubrögð. Ekki bara einu sinni heldur árum saman. Oftast nær eru það opinberir starfsmenn, starfsfólk ráðuneyta og stofnana sem fyrir þessu verða og geri þau tilraun til að bera hönd fyrir höfuð sér er þeim sagt að þau hafi ekki heimild til þess. Ásakanir Vigdísar Hauksdóttur á hendur starfsfólki stofnana ríkisins og embættismanna eru svo alvarlegar að ekki er hægt að ímynda sér að þetta fólk muni sitja lengur þegjandi undir slíkum rógburði. Ásakanirnar snerta svo til allar kafla almennra hegningarlaga og varða margra ára fangelsisvist ef  réttar eru.
Enginn þingmaður eða ráðherra hefur enn sem komið er tekið undir með Vigdísi Hauksdóttur um þessi mál. Eini ráðherrann sem hefur tjáð sig um þau er fjármálaráðherra sem hefur réttilega bent Vigdísi á að kæra þau mál til lögreglunnar, hafi hún grun eða sannanir fyrir að þau eigi þar heima.
Hvað segir Guðlaugur Þór Þórðarson, nánasti samstarfsmaður Vigdísar á þingi? Er hann Vigdísi sammála um ásakanir hennar á hendur opinberum starfsmönnum?
Er það rétt sem Vigdís Hauksdóttir segir að forseti Alþingis sé að fylgja fyrirmælum hennar um að opinbera einhver skjöl sem eiga að sanna glæpsamlegt athæfi starfsfólks fjármálaráðuneytisins?
Hvað finnst þingflokksflokksformanni sjálfstæðisflokksins um ásakanir Vigdísar? Hafa þessi mál verið rædd í þingflokki sjálfstæðisflokksins og hver er afstaða þess flokks til ásakananna?
Síðast en ekki síst: Hvers vegna er ekki drifið í að kæra fólk og rannsaka störf þess eftir áralangar ásakanir á hendur þeim? Hvað kemur í veg fyrir það? Við hvern er Vigdís Hauksdóttir að rífast? Hún er í stjórnarliði sem hefur góðan meirihluta á þingi og er því í færum til þess að rannsaka hvað sem er.
Það er óboðlegt með öllu að þingmenn beri sakir á fólk líkt og Vigdís Hauksdóttir hefur gert. Við það er ekki hægt að búa í nokkru lýðræðisríki.