Verstu starfsmenn á hverjum vinnustað eru hinir ómissandi. Hvað gerum við án þeirra? Sem betur fer er það þó þannig að það eru oftast nær aðeins þeir sjálfir sem telja sig ómissandi en ekki aðrir. Að lokum hvíla hinir ómissandi svo í kirkjugörðum heimsins rétt eins og við hin og lífið heldur áfram án teljandi vandræða.
Í nýársávarpi sínu árið 2012 sagði Ólafur Ragnar Grímsson að hann og fjölskylda sín væru farin að hlakka til frjálsra stunda og mátti af því ráða að hann væri að hætta sem forseti. En Ólafur sagði jafnframt í ræðu sinni að tímarnir væru markaðir verulegri óvissu og þá sérstaklega um stöðu stofnana, samtaka á vettvangi þjóðmála, um breytingar á stjórnarskrá og ESB. Flestir þóttust þá sjá í hvað stefndi. Forsetinn hélt auðvitað áfram, gat hreinlega ekki hætt vegna óvissunnar sem umlukti þjóðina að hans mati. Hann gaf það síðar í skyn að líklega myndi hann hætta áður en kjörtímabili hans lyki en þá aðeins að óvissunni yrði þá aflétt og stöðugleiki skapaðist í stjórnskipan og stjórnarfari landsins. Það gerðist auðvitað ekki. Í nýársávarpi sínu 2016 undirstrikaði Ólafur Ragnar mikilvægi sitt enn frekar og taldi hreinlega upp alla þá óvissu sem honum hafði tekist að eyða. Þar með gæti hann loksins hætt og þjóðinni óhætt að kjósa nýjan forseta.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, var á sömu línu og Ólafur Ragnar í viðtali við Óðin Jónsson á RÚV í morgun. Hún sagðist ekki geta hætt, m.a. vegna óvissunnar um stjórnarskrána og fleira. Ekki að hana langaði beinlínis til að halda áfram að starfa á Alþingi, heldur vegna þess að henni finnst óábyrgt af sér að hætta áður en hún nær að leiða þessi mál til lykta. Hún vísar líka, eins og Ólafur, til reynslu sinnar sem stjórnmálamanns og mikilvægi þess að hún verði til staðar þegar nýir og reynslulausir þingmenn Pírata koma til þings. Þá verður gott að hafa einhvern fyrir á fleti sem skilur og veit hvernig kerfið funkerar, eins og hún segir sjálf. Og Birgitta, rétt eins og Ólafur, talar um að hætta eftir sirka tvö ár eða svo. Þegar óvissunni hefur verið eytt. Þá fyrst er óhætt fyrir hana og þjóðina að hún standi upp og hleypi öðrum að.
Þarna er um að ræða tvo stjórnmálamenn sem geta ekki hætt. Bæði tvö lýsa óvissu sem þau ein geti eytt. Hvorugt heldur áfram vegna löngunar, heldur ætla þau að fórna sér fyrir þjóðina og eyða óvissunni sem að henni steðjar að þeirra mati. Þau halda að þau séu ómissandi.
Allt er þetta að sjálfsögðu misskilningur hjá þeim Ólafi og Birgittu sem hafa orðið hégómanum að bráð eins og svo margt annað ágætis fólk.
.