Það eru talsverð tíðindi falin í ákvörðun Pírata um að snúa frá skilyrðislausri kröfu um allt eða ekkert í stjórnarskrármálinu, eins og Birgitta Jónsdóttir þingmaður flokksins hefur staðið fyrir, yfir í að reyna að þoka málinu áfram eins og gerlegt er hverju sinni, líkt og Helgi Hrafn Gunnarsson stendur fyrir. Píratar, undir forystu Helga Hrafns, hafa gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem fylgir því að leggja allt undir og eiga þá jafnframt á hættu að tapa öllu. Betra og farsælla sé að taka þetta skref fyrir skref í átt til endanlegs sigurs.
Tíðindin eru ekki hvað síst þau að með þessari ákvörðun hafa Píratar stillt sér þétt upp við hlið þeirra sem hafa unnið hvað harðast að því að ná fram breytingum á stjórnarskránni á undanförnum árum. Sú sveit er því að verða ansi þétt skipuð og óárennileg að sjá frá sjónarhóli þeirra sem engu vilja breyta.
Kannski er eitthvað nýtt og gott að gerast í pólitíkinni á Íslandi?