Tveir dómar

 Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum höfðaði á sínum tíma mál gegn ríkinu og krafðist þess að fá veiðigjöldin sem vinstristjórnin lagði á endurgreidd. Eigendur fyrirtækisins vildu meina að álagning sérstaks veiðigjalds væri stjórnarskrárbrot og innheimta gjaldsins því ólögmæt. Auk þess höfðu veiðigjöldin höggvið „stór skörð í gleðina ,“ eins og það var orðað yfir annars góðri afkomu fyrirtækisins. Það er skemmst frá því að segja að Vinnslustöðin tapaði málinu, enda ekkert athugavert við álagningu veiðigjaldanna.
Guðrún Lárusdóttir, fyrrum eigandi Stálskipa í Hafnarfirði, fór líka í mál við ríkið vegna álagningar auðlegðarskatts. Hún vildi meina að auðlegðarskatturinn væri brot á stjórnarskrá og hrein eignaupptaka. Þingmenn sjálfstæðisflokksins voru henni sammála . Guðrún tapaði auðvitað málinu, enda ekkert athugavert við álagningu auðlegðarskatts.
Eigendur þessara tveggja fyrirtækja, sem bæði hafa tekjur af nýtingu af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, voru og eru tilbúnir til að láta sverfa til stáls fyrir dómstólum gegn samfélaginu í þeim tilgangi einum að auka enn á ríkidæmi sitt. Þau virðast frekar vilja láta dæma sig eins og hunda fyrir dómstólum heldur en að greiða þegjandi og hljóðalaust eðlilegt og sanngjarnt gjald af tekjum sínum og auðlegð til samfélagsins.
Það verður þá bara svo að vera.