Ruglandi og ómarkviss umræða

Hörðustu stuðningsmenn úr þingliði stjórnarflokkanna fyrir því að Ísland kljúfi sig frá samstöðu vestrænna ríkja vegna viðskiptabannsins á Rússa hafa allir þegið peninga að gjöf frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Þeir eru því háðir þeim og af því mótast afstaða þeirra. Við megum aldrei láta slíka eiginhagsmuni ráða afstöðu í neinum málum. Afstaða Íslands verður að mótast af sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar og engu öðru. Til að geta tekið afstöðu þurfa að liggja fyrir svör við nokkrum grundvallarspurningum. Tvær helstu eru þessar:

  1. Hvaða hagsmunir, fjárhagslegir sem aðrir, eru í húfi fyrir þjóðarbúið vegna viðskiptabanns Rússa á Ísland?
  2. Hvaða hagsmunir, fjárhagslegir sem aðrir, eru fyrir hendi ef Ísland myndi ákveða að kljúfa sig frá öðrum þjóðum vegna sameiginlegs viðskiptabanns á Rússland?

Svör við fyrri spurningunni eru mörg en misvísindi. Þannig má á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) lesa annars vegar að bannið kosti þjóðina um 20 milljarða (1% af VLF) vegna tapaðs markaðar á sjávarafurðum og hins vegar að væntanlegt tap af samanlögðum útflutningi á landbúnaðar- og sjávarafurðum gæti numið um 15 milljörðum. Formaður samtakanna hefur síðan bæði sagt að tap sjávarútvegsfyrirtækja einna gæti numið allt að 25 milljörðum en líka 12 milljörðum. Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofunnar hefur útflutningur sjávarafurða hins vegar aukist um 9 milljarða þrátt fyrir viðskiptabannið, sem kann kannski að skýrast af því að það sé ekki að fullu farið að hafa áhrif. Seðlabankinn (bls.11) metur hugsanlegt tap vegna bannsins á bilinu 8-10 milljarða og telur að bannið muni ekki hafa áhrif á hagvöxt og að tekjur af útflutningi muni halda áfram að aukast þrátt fyrir bannið. Sama segir Kauphöllin sem gerir ekki ráð fyrir  að bannið hafi merkjanleg áhrif á virði fyrirtækja sem þar eru á skrá.
Allar upplýsingar um hugsanlegt tap vegna viðskiptabannsins og áhrifin af því eru því mjög á reiki og ótrúverðugar, svo vægt sé til orða tekið.
Þetta verður að fá á hreint.
Það er nokkuð ljóst að með því að kljúfa okkur frá öðrum þjóðum og hunsa bannið gæti það kostað okkur talsverð vandræði og fjármuni. Slíkt myndi væntanlega hafa slæm áhrif á samskipti okkar við þau lönd sem við eigum í mestum samskiptum við, bæði pólitískt og viðskiptalega. Enn hef ég ekki séð trúverðugt mat á því hver þau áhrif gætu orðið og hvað það gæti kostað okkur.
Þetta verður líka að fá á hreint.
Hagsmunaaðilar hafa fullyrt að hægt hefði verið að komast undan viðskiptabanninu ef stjórnvöld hefðu verið betur undirbúin undir það sem blasti við og öllum átti að vera ljóst. Ég held að það sé margt til í því að stjórnvöld hafi ekki staðið sig í þessu máli enda logar nú allt í illdeilum milli stjórnarflokkanna vegna þess.
Þetta má líka fá á hreint.
Það er síðan ágætt að velta því fyrir sér hvort og þá gegn hverjum sé rétt að beita viðskiptabanni og þá af pólitískum og siðferðilegum ástæðum. En látum það liggja á milli hluta í bili.
Í stuttu máli eru upplýsingar um þetta mál afar ruglingslegar svo ekki sé meira sagt. Það á að vera hægt að upplýsa bæði stjórnmálamenn og almenning betur um málið. Það hafa verið gerðar tilraunir til þesssem virðist því miður hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sem höndla með málið. Þangað til sú breyting verður á verður afar erfitt að taka upplýsta ákvörðun um viðskiptabann á Rússa og þangað til munu þröngir hagsmunir ráða afstöðu Íslands.
Það er ekki nógu gott.