Bankasýsla ríkisins hyggst gera tillögu um að fjármálaráðherra verði heimilt að selja allt að 30% hlut ríkisins í Landsbanka Íslands, sem er svo til að öllu leyti í eigu ríkisins. Því er reyndar haldið fram að aðeins þurfi að uppfylla tvenn skilyrði fyrir sölunni, þ.e. „annars vegar að tillaga þar að lútandi komi frá Bankasýslu ríkisins og hins vegar að heimild sé fyrir sölunni í fjárlögum ársins” eins og segir í frétt RÚV af málinu.
Þetta er nú ekki alveg svona einfalt.
Í árslok 2012 voru samþykkt sérstök lög um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í þeim lögum eru sett allnokkur skilyrði fyrir sölu á þessum hlutum eins og sjá má í 2. og 3.gr. laganna. Formaður sjálfstæðisflokksins og núverandi fjármálaráðherra talaði ákveðið gegn þessari lagasetningu á sínum tíma eins og sjá má á vef þingsins og greiddi atkvæði á móti lagasetningunni eins og gefur að skilja, líkt og flestir þingmenn hægriflokkanna.
Fjármálaráðherra sjálfstæðisflokksins hefur einnig lýst vilja sínum að selja Íslandsbanka þegar ríkið eignast hann, það þurfi að vinda sér í málið eins og hann segir. Reyndar orkar það mjög tvímælis að fjármálaráðherra hafi yfir höfuð heimild til að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka samkvæmt framangreindum lögum.
Hvað um það.
Mörgum finnst þetta spennandi staða og miklar vangaveltur eru uppi um þessa væntanlegu mestu einkavæðingu sögunnar. Einhverra hluta vegna virðast þó fáir vera að spá í hvort það sé yfir höfuð rétt að setja fjármálafyrirtækin aftur í hendur einkaaðila. Hvernig ætli standi á því? Er ekki rétt að spyrja þeirrar spurningar fyrst – og fá svar við henni – áður en lengra er haldið?
Þó ekki væri nema af virðingu við söguna.