Gufaði Frosti upp?

Frosti Sigurjónsson, þingmaður framsóknarflokksins, gagnrýnir Alþingi á heimsíðu sinni fyrir að veita fjármálaráðuneytinu, að ósk fjármálaráðherra, heimild til að skuldbinda ríkissjóð um 2,3 milljarða króna vegna kaupa á hlut í Innviðafjárfestingabanka Asíu.
Það má vel taka undir þessa gagnrýni hjá Frosta sem byggð er málefnalegum rökum.
Við afgreiðslu fjárlaga 2016 rétt fyrir jól samþykkti Alþingi tillögu um að hefja framkvæmdir að byggingu við þinghúsið að ósk og tillögu forsætisráðherra sem áætlað er að kosti – jú, 2,3 milljarða (bls. 12). Í atkvæðagreiðslu um tillöguna virðist Frosti hafa gufað upp þar sem ekki er að sjá að hann hafa greitt atkvæði um 2, 3 milljarða króna byggingu forsætisráðherra. Sem er skrýtið þar sem Frosti tók þátt í atkvæðagreiðslu um næstu tillögu á undan og næstu á eftir ef marka má gögn þingsins. Það er ekki annað hægt að ráða í þögul mótmæli Frosta en að honum mislíki hugmyndir formanns framsóknarflokksins og forsætisráðherra um nýbygginguna og 2,3 milljarða fjáraustur í hana. Hann hefur bara ekki kunnað við að opinbera það.

Enda er ekki allur munur á 2,3 milljörðum og 2,3 milljörðum ef út í það er farið.