Bjarni er svo lúinn!

 Það vakti athygli þegar Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður sjálfstæðisflokksins, brást ókvæða við orðum Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ um að ríkisstjórn hægriflokkanna hefði alið á ójöfnuði og misskiptingu í landinu. Í kjölfarið hjólaði Bjarni svo með hótunum í forseta Íslands vegna ummæla þess síðarnefnda um kjör öryrkja og aldraða. Allt er þetta frekar sérstakt og ráðherranum til minnkunar.
Skýringar Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðings, með áratuga reynslu sem slík, á orðum og framgöngu fjármálaráðherra eru þó enn undarlegri. Hún gerir í raun ekkert úr þessu og segir skýringuna vera þá að ráðherrann hafi verið pirraður og þreyttur eftir erfið misseri og þingstörf!! Bjarni var bara lúinn og pirraður og þafnast hvíldar, segir stjórnmálafræðingurinn! En eftir hvað er hann lúinn og pirraður? Ríkisstjórnin hans tók sér lengsta sumarfrí sem um getur í sögunni sl. sumar. Áður hafði Bjarni slappað af í sólinni á Flórída til að undirbúa sig fyrir sumarfríið. Hann tók ekki þátt í umræðum um fjárlög næsta árs í þinginu undir loks ársins nema til að gera grein fyrir atkvæði sínu.
Eftir hvað var hann þreyttur? Hafa stjórnmálafræðingar enga aðra skýringu á undarlegu háttarlagi ráðherrans nema ímyndaða þreytu hans? Rétt eins og framganga formanns fjárlaganefndar gagnvart forstjóra Landspítalans var útskýrð með pirringi vegna ófærðar.
Ef Bjarni er lúinn eftir haustið og það hefur þessi áhrif á framgöngu hans á hann að finna sér annað starf.