Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir alvarleika þeirra breytingartillagna sem meirihluti fjárlaganefndar leggur til við fjárlagafrumvarp næsta árs. Um það vitna tillögur um niðurskurðinn hjá RÚV og Landspítalanum svo og hjá öryrkjum og öldruðum sem mikið hefur verið í umræðunni. Alvarlegast af öllu er þó glæfraleg tillaga um að veita fjármálaráðherra ótakmarkaða heimild til að selja eignarhluti ríkisins í öllum bönkunum (6.gr. bls. 11), þ.m.t. Íslandsbanka eins og hann leggur sig eftir að ríkið eignast hann að fullu. Þetta þýðir m.ö.o. að fjármálaráðherra hægristjórnar sjálfstæðis- og framsóknarflokks fær heimild Alþingis til að einkavæða allt bankakerfið eins og það leggur sig á næsta ári, verði breytingartillögurnar samþykktar í atkvæðagreiðslu síðar í dag. Gangi það eftir þarf málið eftir það ekki að koma til kasta þingsins að neinu leyti, hvorki til samþykktar né synjunar. Þingið þarf þá hvorki að samþykkja verð, kaupendur né skilyrði vegna sölu á bankakerfinu. Allt mun það verða læst innan veggja Valhallar sem fyrr.
Þetta mál eitt og sér væri þess virði að halda fjárlagafrumvarpinu í gíslingu fram yfir áramót í þeim tilgangi einum að koma í veg fyrir endurtekna einkavæðingu bankanna.
Þjóðin á þetta ekki skilið.