Fyrirmyndarfyrirtæki

Norðursigling á Húsavík hefur verið í fararbroddi íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu og strandmenningu í 20 ár með öllum sínum uppgerðu eikarbátum og skútum og veitingastöðum. Fyrirtækið hefur rutt öðrum brautina á mörgum sviðum, ekki síst á sviði umhverfismála. Nýverið var Norðursigling tilnefnd til stórra evrópskra umhverfisverðlauna sem veitt eru ferðaþjónustufyrirtækjum. Þar var eflaust horft til rafvæðingar á einni af skútum fyrirtækisins. Það er ekki víst að fólk geri sér almennt grein fyrir hversu stór þessi tilnefning er og hve mikil viðurkenning hún ein og sér er fyrir Norðursiglingu. „Þetta er svolítið eins og að vera tilnefndur til Óskarsverðlauna,“ segir forstjóri fyrirtækisins, auk þess sem tilnefningin vekur jákvæða athygli á Íslandi sem umhverfisvænum áfangastað.

Þetta er ekki  fyrsta viðurkenningin sem Norðursigling fær. Fyrir skömmu fékk fyrirtækið umhverfisverðlaun Ferðamálastofu vegna árangurs í að efla sjálfbæra ferðaþjónustu, enda hefur Norðursigling náð afar athyglisverðum árangi á því sviði.
Það er sannarlega ástæða til að samfagna Norðursiglingu á Húsavík fyrir frábæran árangur við umhverfisvæna starfsemi og við að efla sjálfbæra ferðamennsku.