Lýðræði er ekki það að tiltekinn flokkur eða hópur fólks fari fram með offorsi og komi vilja sínum fram án þess að fjöldi annarra í samfélaginu fái rönd við reist. - Stjórnmálabarátta síðari tíma virðist stundum ekki felast í öðru en lýðskrumi og samkeppni flokksleiðtoga um að sannfæra kjósendur með áróðri og auglýsunum um að þeir eða flokkar þeirra muni fullnægja hvötum þeirra og þörfum betur en aðrir.“
Ríkið og rökvísi stjórnmála. Páll Skúlason.
Forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að það standi hvorki til af hans hálfu né ríkisstjórnarinnar að semja um nokkurn hlut við stjórnarandstöðuna á Alþingi vegna fjárlagagerðar næsta árs eða nokkurs annars. Þá er gott fyrir fólk að vita að ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu vegna fjárlaga snýst að stærstum hluta um framlög til Landspítala og kjaramál aldraðra og öryrkja.
Hægriflokkarnir fengu tæplega helming greiddra atkvæða í sinn hlut í síðustu kosningum (49,85%) og mynduðu ríkisstjórn á þeim grunni. Það gefur þeim engan rétt til að fara fram með offorsi og þröngva vilja sínum fram eins og forsætisráðherra segist ætla að gera. Það er lágkúra, eins og Róbert Marshall benti réttilega á í dag.
"Lýðræði er ekki það að tiltekinn flokkur eða hópur fólks fari fram með offorsi og komi vilja sínum fram án þess að fjöldi annarra í samfélaginu fái rönd við reist."