Veiðigjöld á síðasta fiskveiðiári námu um 7,7 milljörðum króna. Fyrir tveimur árum námu gjöldin 12,8 milljörðum króna. Veiðigjöld hafa lækkað samtals um 9 milljarða króna á síðustu tveimur árum. Þessar upplýsingar má sjá á vef Fiskistofu.
Þessi lækkun er ekki vegna þess að verr gangi í sjávarútvegi, heldur vegna þess að stjórnvöld hafa ákveðið að lækka gjöldin. Sjávarútvegurinn gengur sem betur fer vel og betur en oftast nær áður. Arðsemi greinarinnar á síðasta ári nam um 72 milljörðum króna og margt sem bendir til þess að hún verði á bilinu 75 – 80 milljarðar á yfirstandandi ári. Þetta má m.a. sjá á vef Hagstofunnar sem og hér og á spám um afkomuna í ár miðað við uppgjör stærstu fyrirtækja.
Í stuttu máli skiptist arðsemin af greininni þannig að ríkið (eigandinn) fær 7,7 milljarða í sinn hlut (um 10%) á móti u.þ.b. 80 milljörðum (90%) sem greinin heldur eftir.
Ég spurði fjármálaráðherra að því í dag hvort hann teldi þetta vera réttláta skiptingu, þ.e. 10% ríkisins á móti 90% greinarinnar. Ráðherrann brást illa við og virtist í töluverði ójafnvægi. Eftir að hafa þegið ráðgjöf frá Jóni Gunnarssyni þingmanni, neitaði ráðherrann síðan að svara spurningunni.
Þannig var nú það.