Ekki tilviljanir heldur grjóthörð pólitísk stefna

Landspítalinn kom gjaldþrota út úr „góðærinu“ undir öryggri yfirstjórn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þáverandi heilbrigðisráðherra. Samkvæmt ríkisreikningi 2009 vantaði 3 milljarða upp á að endar næðu saman þegar veislunni lauk (bls. 48-96-108). Það var ekki vegna peningaskorts heldur vegna pólitískrar stefnu. Spítalinn var sveltur í þrot. Hulda Gunnarsdóttir, þáverandi forstjóri Landspítalans, lýsti ástandinu með þeim orðum að spítalinn hefði þá hvorki átt fyrir lyfjum né launum starfsmanna. Hún hætti.
Björn Zoëga tók við stjórn Landspítalans eftir Hrun. Honum, í góðu samstarfi við starfsfólk sitt, tókst vel upp við að takast á við þann vanda sem Hrunið færði spítalanum ofan í gjaldþrotið. Samstarf stjórnenda spítalans og stjórnvalda, þ.á.m. fjárlaganefndar Alþingis, var með ágætum á þeim tíma, enda allir einhuga um að spila sem best úr þeirri stöðu sem upp var komin. Það varð svo eftir síðustu kosningar að Björn Zoëga óskaði eftir að fá vitneskju um fyrirætlanir hægristjórnarinnar varðandi spítalann. Í kjölfarið sagði hann starfi sínu lausu með þeim orðum að hann ætlaði ekki að verða sá sem leiddi Landspítalann fram af brúninni. Hann hætti.
Páll Matthíasson tók við af Birni. Hann er nú að fá að kenna á því sama og forverar hans af hálfu þingmanna hægriflokkanna sem virðast staðráðnir í að leggja spítalann endanlega í rúst sem og opinbera heilbrigðiskerfið allt eins og það leggur sig.
Þetta eru ekki tilviljanir. Þetta er afleiðing af markvissri pólitískri stefnu hægrimanna og ætti ekki að koma neinum á óvart.
Líklega fer því að styttast í veru Páls Matthíassonar í forstjórastóli Landspítalans. Hann, ekkert frekar en forverar hans, getur tæplega setið þegjandi undir markvissu pólitísku ofstæki af því tagi sem þingmenn hægriflokkanna beita stjórnendur Landspítalans.
Hvorki heilbrigðisráðherra né aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma Landspítalanum til varnar í yfirstandandi atlögu að honum.
Þeir virðast ánægðir með sitt fólk í fjárlaganefnd.