Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, er með orðvarari mönnum. Það er tekið mark á því sem hann segir. Páll lýsir fundi sínum með fjárlaganefnd á dögunum m.a. með þessu orðum: „Framkoma forystu fjárlaganefndar og skilningsleysið á þörfum þeirrar grunnþjónustu fyrir almenning sem sjúkrahúsið veitir olli mér vonbrigðum. Vonbrigðum í ljósi mikilvægis og umfangs málaflokksins og þess skýra vilja þjóðarinnar sem kemur fram í skoðanakönnun eftir skoðanakönnun; að forgangsraða eigi í þágu heilbrigðisþjónustunnar umfram annað.“
Þetta eru þung orð af hálfu forstjóra Landspítalans í ljósi þess að orð hans hafa meira vægi en gengur og gerist. Honum hreinlega blöskrar framkoma forystu fjárlaganefndar. Þau gengu fram af honum með viðhorfum sínum til Landspítalans.
Það verður ekki undan því komist að einhver eða einhverjir sem sátu þennan fund upplýsi okkur hin um „framkomu forystu fjárlaganefndar“ gagnvart gestum fundarins sem og viðhorfi forystu fjárlaganefndar til Landspítalans. Við eigum rétt á því að vita það. Reyndar eru þetta svo alvarleg ummæli höfð eftir forstjóra Landspítalans að ætla megi að forseti Alþingis krefji fjárlaganefnd skýringa, sé honum á annað borð umhugað um traust almennings og virðingu á Alþingi.
En það er sjálfsagt til of mikils mælst.