Slysavarnaskóli sjómanna á þrjátíu ára starfsafmæli um þessar mundir. Ég held því fram að engum öðrum skóla hafi tekist betur upp við að ná markmiðum sínum á jafn stuttum tíma. Á þessum þrjátíu árum hefur orðið mikil hugarfarsbreyting meðal sjómanna og útgerðarmanna varðandi slysavarnir um borð í skipum. Frá því að Slysavarnaskólinn tók til starfa hefur slysum á sjó fækkað mjög sem og skipsköðum og banaslysum. Frá árinu 2008 eru þrjú ár án banaslysa á sjó. Það er mikil breyting frá því sem áður var og aldeilis frábær árangur. Þetta er ekki síst að þakka öflugri starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna og því frábæra fólki sem þar hefur starfað þótt fleira komi til.
Íslenska þjóðin stendur í mikilli þakkarskuld við Slysavarnaskóla sjómanna.