Eygló Harðardóttir er ráðherra húsnæðismála. Hún hefur ekki komið neinu í verk í húsnæðismálum á þeim ríflega tveim árum sem hún hefur verið ráðherra. En hún er hugmyndarík. Nýjustu hugmyndir hennar snúa að því að lækka húsnæðiskostnað um 10% með því að allir aðilar sem komi að byggingu húsnæðis lækki kostnað sinn um 1%. Ég endurtek: Lækka byggingarkostnað um 10% með því að allir lækki sinn hlut um 1%.
Dæmi: Hús kostar hundrað krónur. Að byggingu hússins koma 10 aðilar, allir með jafnan hlut, þ.e. 10 krónur hver. Ef hönnuðir lækka sínar 10 krónur um 1% lækkar þeirra kostnaður um 0,1 krónu. Ef steypukarlarnir lækka 10 krónurnar sínar um 1% lækkar kostnaður þeirra þá væntanlega um 0,1 krónur. Ef rafvirkjarnir lækka sínar 10 krónur um 1% lækkar þeirra kostnaður væntanleg líka um 0,1 krónu og svo koll af kolli þar til allir þeir tíu aðilar sem komu að byggingu hússins hafa lækkað sínar tíu krónur um 1% eða 0,1 krónur. Samtal hefur kostnaðurinn við byggingu hússins þá lækkað um 1 krónu (10 krónur x 0,1 krónur = 1 króna).
Húsið sem átti að kosta 100 krónur kostar því núna 99 krónur (100 krónur -1 króna = 99 krónur).
Niðurstaðan af hugmynd Eyglóar um að lækka byggingarkostnað um 10% með því að lækka hann um 1% er að hún væri ekki góður fjármálaráðherra.