Samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur um að sniðganga vörur frá Ísrael dró á örfáum klukkutímum fram allt það versta í íslenskum stjórnmálum. Forsætisráðherra komst upp með það óáreittur í fjölmiðlum að ala á ótta hjá almenningi um að eitthvað stórkostlegt hefði gerst og nauðsynlegt væri að bregðast hratt við. Annar ráðherra í ríkisstjórninni bætti um betur og sagði að nú yrði þjóðin öll að snúa bökum saman og leggjast á eitt um að lágmarka tjónið. Bæði sögðust þau hafa heyrt af hinu og þessu frá hinum og þessum um þetta meinta tjón. Hvorugt þeirra nefndi þó dæmi máli sínu til stuðnings.
Borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins líkti borgarstjórnarmeirihlutanum við nasista og ítrekaði það í meintri afsökunarbeiðni þar sem hún sagðist ekki hafa verið nógu skýrmælt í fyrri yfirlýsingum.
Borgarfulltrúi meirihlutans baðst afsökunar á því að hafa misfarið með vald sitt án þess að útskýra það neitt sérstaklega. En hann lofaði að gera það aldrei aftur.
Bankastjóri Arion banka blandaði sér í málið með því að gefa í skyn að útlenskir auðmenn myndu kannski hætta við að byggja lúxushótel í Reykjavík vegna málsins. Þingmaður í stjórnarandstöðu sagði það ekki gáfulegustu hugmynd í heimi að fara gegn Bandaríkjamönnum. Nær væri að bögga Kínverja og Rússa sem væru væntanlega meðfærilegri.
Utanríkisráðuneytið segist hafa svarað um 400 fyrirspurnum vegna ályktunar borgarstjórnar sem er til merkis um að málið hafi ekki vakið neina sérstaka athygli utan Íslands, öfugt við það sem haldið var fram af ráðherrum og borgarfulltrúum minnihlutans.
Fleira mætti telja upp um ömurlega framgöngu margra stjórnmálamanna vegna þessa máls.
Það eina góða sem leitt hefur af þessu er að talsmenn hægriflokkanna, jafnt í borgarstjórn sem og á Alþingi halda að þeir hafi unnið einhvers konar sigur í þessu máli og hafa fengið aukið sjálfstraust til að tala hreint út um hugðarefni sín og pólitísk markmið. Það hefur skýrt pólitísku línurnar og orðið til þess að þjappa stjórnmálamönnum á báðum köntum stjórnmálanna betur saman um stefnumál sín og markmið. Sem er ágætt - ekki síst fyrir kjósendur.
Enn hefur enginn getað útskýrt það almennilega hvað var athugavert við ályktun borgarstjórnar um að sniðganga vörur úr þrælabúðum Ísraelsríkis.