Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir Landsbankann ekki alltaf hafa sinnt hlutverki sínu eins og hann (ráðherrann) hafi viljað að hann gerði. Ráðherrann er einnig gagnrýninn á fyrri áform bankans um að byggja nýjar höfuðstöðvar.
Þetta kom fram í „svari“ hans við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, á Alþingi í dag.
En hún var ekki að spyrja hann um afstöðu hans til bankans eða fyrri áform um byggingu nýrra höfuðstöðva.
Katrín Jakobsdóttir spurði hvort framsóknarflokkurinn stæði heilshugar að söluáformum á Landsbankanum eins og þau birtast í fjárlagafrumvarpi hans eigin ríkisstjórnar og fjármálaráðherra hefur útlistað svo vel í fjölmiðlum. Katrín spurði einnig að því hvort fyrirhuguð sala á Landsbankanum væri að frumkvæði framsóknarflokksins og hvernig þetta félli að samþykktum flokksins um að bankinn ætti að vera í eigu ríkisins. Við því fengust engin svör.
Það er athyglisvert að nokkrir fjölmiðlar birta svör ráðherrans og hrósa honum sérstaklega málefnalega nálgun án þess að átta sig á því að hann svaraði engu.
Þeim er þó nokkur vorkunn þegar forsætisráðherra framsóknarflokksins er annars vegar.