Víst kemur okkur það við ...

„Its about being interested in a nice looking woman, wanting to have an intelligent and fun conversation and good...very good sex. Im not from the States but do travel quite often.“
Bjarni Benediktsson á vef Ashley Madison

Það tók ekki nema tæpan sólarhring að gera það að hinum eðlilegasta hlut að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra væri skráður til leiks á vefsíðu sem hvetur til framhjáhalds. Eftir því sem ég kemst næst hefur ekki verið minnst á það mál í fjölmiðlum í dag eða gær.
En kemur okkur eitthvað við hvað fólk er að fást við í frítíma sínum eða hagar einkalífi sínu? Nei, almennt kemur það okkur ekkert við. En þegar um er að ræða valdamesta ráðherra ríkisstjórnar og formann í stjórnmálaflokki þá lítur málið aðeins öðruvísi út. Það er eðlilegt að gerðar séu strangari siðferðilegri kröfur til forystufólks í stjórnmálum en annarra, að ekki sé talað um ráðherra í ríkisstjórn. Það skiptir máli að við vitum hvers konar manneskja það er sem hefur tekið að sér að leiða þjóðina og vera talsmaður hennar inn á við sem utan. Það skiptir sjálfsmynd okkar sem þjóðar máli að fyrir henni fari fólk sem setur sér siðferðileg mörk og fylgi þeim. Ekki síst eftir það sem á undan er gengið.
Í 8. bindi skýrslu RNA er fjallað um siðferði, m.a. siðferði stjórnmálamanna. Þar segir m.a. á bls. 82: Frá siðferðilegu sjónarmiði er ekki síður mikilvægt að efla hið innra eftirlit stjórnmálamanna með sjálfum sér og leitast við að rækta þann hugsunarhátt innan stjórnmálanna að þau séu ekki bara barátta um völd og áhrif heldur öðru fremur þjónusta í almannaþágu. Hinn umfangsmiklu og ríku ábyrgð stjórnmálamann á farsæld borgarann og ríkisins hefur verið líkt við frumábyrgð foreldra á velferð barna. Þeim er trúað fyrir fjöreggi þjóðarinnar. Því ber að gera strangar siðferðiskröfur til stjórnmálamanna og eðlilegt að þeir ígrundi það sjálfir reglulega hverjar eru helstu skyldur þeirra og ábyrgð.
Lærdómarnir sem höfundar skýrslunnar telja að megi læra af fortíðinni hvað þetta varðar eru m.a. (bls. 84): „Leita þarf leiða til þess að styrkja siðferðisvitund stjórnmálamanna og auka virðingu þeirra fyrir góðum stjórnsiðum. Í því skyni þyrftu þingmenn meðal annars að setja sér siðareglur og skýra þar með fyrir sjálfum sér og almenningi hvernig þeir skilja meginskyldur sínar og ábyrgð.“

Víst kemur okkur það við hvort ráðherrar eru skráðir á alþjóðlegar vefsíður sem skipuleggja framhjáhald.
Látum ekki segja okkur annað.