Píratar grafa holu

 Píratar leggja til að við næstu kosningar verði mynduð ríkisstjórn um tvö verkefni. Annars vegar að lögfesta tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá og hins vegar að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður um aðild Íslands að ESB. Allt annað sem þarf að gera á þessum sex mánuðum eins og t.d. samþykkt fjárlaga verður gert án breytinga.
Í þessu felast miklar mótsagnir við fyrri áherslur Pírata um opið lýðræðislegt samfélag þar sem allir geta tekið þátt og haft áhrif.
Í fyrsta lagi vilja Píratar með þessu koma í veg fyrir alla gagnrýna umræðu í samfélaginu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Hvað þá að einhverjar breytingar verði gerðar á þeim tillögum. Það felst því talsverð lítilsvirðing í þessum hugmyndum gagnvart almenningi í landinu sem á að stilla upp gegn ófrávíkjanlegum skilyrðum Pírata um að samþykkja óbreyttar tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá, án umræðu eða hugsanlegra breytinga.
Í öðru lagi ætlast Píratar ekki til að neinar breytingar verði gerðar á fjárlögum hægristjórnarinnar og þar með áherslum hennar í öllum okkur mikilvægustu málum. Píratar leggja því til að við höldum áfram á þeirri braut að skerða framlög til heilbrigðis- ,velferðar- og menntamála. Þeir vilja að nemendum verði áfram vísað frá skóla vegna aldurs. Þeir ætlast ekki til að ríkisstjórnin þeirra grípi til aðgerða til að styrkja innviði Landspítalans sem er að hruni kominn, faglega og fjárhagslega. Þeir ætla að halda áfram að lækka skatta á þá tekjuhæstu og færa byrðarnar af samrekstrinum á herðar þeirra sem minna hafa. Í tillögum Pírata felst að áfram verði fylgt stefnu hægristjórnarinnar gegn verndun og friðun náttúruverðmæta. Svo nokkur dæmi séu tekin.
Í þriðja lagi setja Píratar öllum flokkum, utan núverandi stjórnarflokka, ófrávíkjanleg skilyrði um að falla frá öllum sínum stefnumálum gegn því að mynda ríkisstjórn bundið skilyrði Pírata. Að því getur enginn stjórnmálaflokkur gengið, hvorki Píratar né aðrir enda ekki um nokkurt samstarf eða samvinnu að ræða að neinu leyti.
Í þessum furðulegu og hrokafullu tillögum Pírata felst ofmat á eigin getu og um leið mikið vanmat á því verkefni sem þeir þykjast tilbúnir að takast á hendur. Sem er að stjórna landinu og á ekki að taka af léttúð.
Píratar virðast vera að grafa sér pólitíska holu.