Rosalega gott nammi

Döðlunammi er í hávegum haft á mínu heimili enda rosalega gott og gaman að búa það til. Það sem til þarf er þetta:
400 gr döðlur
120 gr púðursykur
250 gr smjör
3 bollar Rice krispies
300 gr súkkulaði

Sjálfur geri ég alltaf tvöfalda uppskrift, nota helmingi minni púðursykur og aðeins minna súkkulaði.
Döðlurnar eru brytjaðar smátt og settar í pott ásamt smjörinu og púðursykrinum. Þetta er látið malla saman í drullu í pottinum við vægan hita. Getur tekið smá tíma sem er allt í lagi. Muna bara að hræra í þessu af og til. Þegar sullið í pottinum er orðið tilbúið er Rice Krispie hrært blandað vel saman. Þegar því er lokið er maukið sett í form, ekki of þykkt. Sjálfur nota ég form sem er 34x24 cm fyrir einfalda uppskrift. Muna bara að setja smjörpappír undir og smyrja sullinu á meðan það er heitt.
Þegar því er lokið er þetta kælt í ísskáp á meðan súkkulaðið er brætt yfir vatnsbaði. Þegar það er tilbúið er því smurt yfir döðulnammið og öllu skellt aftur inn í ísskáp þar sem það er geymt þar til súkkulaðið storknar. Að lokum er nammið skorið í mátulega stóra munnbita og geymt í frysti í góðum umbúðum, t.d. Tubberware.
Best er að neyta góðgætisins með sjóðheitum Gulum Braga yfir gömlum Útsvarsþætti eða bara hvenær sem nammi löngun gerir vart við sig.
Verði ykkur að góðu!