Í fréttum RÚV í kvöld var sagt frá því að Landspítalinn yrði kannski rekinn innan ramma fjárlaga í ár. Formaður fjárlaganefndar fagnaði þessu skiljanlega og mærði mjög ráðherra heilbrigðismála af þessum sökum. Skilja mátti á fréttinni að um mikil tímamót og viðsnúning væri að ræða.
Það er nú öðru nær.
Þeir sem muna lengra en viku aftur í tímann vita að Landspítalinn var rekinn innan marka fjárlaga þrjú ár í röð eftir Hrun þrátt fyrir afar erfið skilyrði. Það var ekki fyrr en eftir að hægriflokkarnir tóku við vorið 2013 að fjara tók aftur undan rekstri spítalans og enn ekki útséð um hvernig reksturinn verður í ár.
Fyrir þá sem muna lengra en ár aftur í tímann kom Landspítalinn gjaldþrota út úr góðæri fyrir-Hruns áranna undir stjórn þáverandi heilbrigðisráðherra sjálfstæðisflokksins. Sá er nú varaformaður fjárlaganefndar Alþingis.
Frétt RÚV og viðtalið við formann fjárlaganefndar er þess vegna ekki-frétt dagsins.