Af öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefur enginn komið jafn illa út úr umræðunni um viðskiptabann Rússa á Ísland og Bjarni Benediktsson. Bjarni hefur sveiflast öfganna milli í málinu, allt frá því að lýsa yfir verulegum efasemdum um að Ísland standi með öðrum þjóðum í þvingunum gegn Rússum í að lýsa yfir algjörum stuðningi við þær þvinganir. Hann hefur sagt að málið hafi verið lítið rætt í ríkisstjórn á meðan utanríkisráðherra hefur fullyrt að algjör samstaða ríki innan ríkisstjórninnar um það. Bjarni hefur viðurkennt að ríkisstjórnin hafi verið óundirbúin til að takast á við viðskiptabann Rússa og engin viðbragðsáætlun hafi verið til af hennar hálfu. Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður SVN, hefur bent á að með undirbúningi og umræðu af hálfu stjórnvalda hefði mátt koma í veg fyrir mikið tjón af þessum sökum.
Veikleikar Bjarna Benediktssonar sem stjórnmálamanns hafa opinberast vel í þessu máli. Hann er illa fær um að starfa undir álagi. Hann er óviss um hverra hagsmuna hann á að gæta sem ráðherra. Hann undirbýr sig ekki fyrir að takast á við stór mál sem þó blasir við að verður að gera. Hann er ótrúverðugur og ósannfærandi þegar á hann reynir í erfiðum málum.
Axarsköft Bjarna Benediktssonar og framganga hans öll í þessu máli einu saman ætti að duga til þess að hann ætti skilyrðislaust að víkja sem ráðherra.
En það er sjálfsagt til of mikils mælst.