Óvenju slakt af Ólöfu Nordal að vera.

 Yfirlýsingar Ólafar Nordal innanríkisráðherra um Vaðlaheiðargöng eru um margt merkilegar.
Fyrir það fyrsta vegna þess að hún sem ráðherra fer með samgöngumál en það hlýtur að vera einsdæmi að ráðherra hjóli af svo mikilli heift gegn framkvæmdum sem undir hann heyra.
Í öðru lagi eru fullyrðingar Ólafar um að „allur kostnaður“ af gerð ganganna muni lenda á ríkissjóði algjörlega innistæðulausar. Fullyrðingin felur í sér að aldrei muni nokkur maður greiða fyrir að keyra um göngin. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja og byggð eru á áralöngum rannsóknum og undirbúningi mun kostnaður við göngin verða greiddur af þeim sem um þau keyra. Jafnvel þó þannig færi á einhverjum tímapunkti að tekjur stæðu ekki undir rekstri og afborgunum væri verið að tala um lítinn hluta kostnaðarins til skamms tíma. Ef svo illa færi að á endanum fengist ekki allur kostnaður til baka með veggjöldum myndi sá kostnaður verða hlutfallslega lítill og dreifast um langan tíma. Eftir stæðum við með góðar samgöngubætur sem hefðu þá kostað ríkissjóð lítið sem ekkert.
Í þriðja lagi auka bættar samgöngur umferð og umsvif. Það er ekkert sem bendir til annars en að svo muni einnig verða um Vaðlaheiðargöng. Það rennir enn frekari stoðum undir forsendur framkvæmdanna og styrkir fjárhagslegan grundvöll þeirra.
Það er ábyrgðarhluti af ráðherra að tala jafn gáleysislega um svo stórt mál. Það verður að gera þá kröfu til fólks sem slíkum embættum gegnir að það tali af yfirvegun og lágmarksþekkingu um slík mál sem ég veit að Ólöf hefur yfir að ráða í þessu tilfelli.
Það er óvenju slakt af Ólöfu Nordal að vera.