Mér hefur alltaf verið heldur hlýtt til kirkjunnar sem stofnunar og nýtt mér starfsemi hennar á ýmsum sviðum. Þekki nokkra presta að góðu einu og tel mér það til tekna að eiga kunningja úr þeirra röðum.
Í kjölfar Hrunsins virtust nokkrar stofnanir og samtök ekki hafa áttað sig á því að Ísland rambaði á barmi gjaldþrots. Sjóðirnir voru tæmdir og ekkert eftir til skiptanna. Kirkjan sem stofnun var í þeim hópi og það kom mér á óvart hvað þáverandi forystumenn hennar voru harðir og allt að því heiftúðugir í garð stjórnvalda á þeim tíma vegna afleiðinga Hrunsins.
Um það á ég allnokkur dæmi.
Nú hefur kirkjuþing "hafnað beiðni" innanríkisráðuneytisins um áframhaldandi aðhald í rekstri og hótar málsókn ef kirkjan fær ekki sitt refjalaust. Innanríkisráðherra segir "ákvörðun kirkjuþings" hvað þetta varðar "ekki koma sér á óvart".
Síðan hvenær gerðist það að ráðherrar sendu stofnunum bréf með "beiðni" um aðhald og settu það í hendur viðkomandi stofnunar að "ákveða" framhaldið?
Hvenær gerðist það að stofnanir tóku "ákvörðun" um hvort þær sýndu aðhald í rekstri eða ekki?
Ég man ekki til þess að Landspítalanum, háskólunum, framhaldsskólum, sjúkrastofnunum og fleiri slíkum hafi verið fært slíkt ákvörðunarvald.
Hefur ráðherrann skrifað fleiri stofnunum sem undir hana heyra sambærilegt bréf? Hafa margar stofnanir "ákveðið" að verða ekki við "beiðni" ráðherra um aðhald í rekstri?
Hafa fleiri ráðherrar skrifað svona bréf og hver hafa þá viðbrögð viðkomandi stofnana verið?
Sjálfur hef ég aldrei verið spurður um það hvort ég vilji taka á mig byrðar óráðsíu fyrir-Hrunsáranna. Það hefur aldrei verið mín ákvörðun að hafna því eða samþykkja. Það er einfaldlega ekki öðrum til að dreifa en okkur sem byggjum þetta land að axla þær byrðar.
Kirkjan þar með talin.