Fullt tilefni til að rannsaka framgöngu ráðherra og ríkisstjórnar

 Forsætisráðherra segir að „menn hafi getað haft raunæfar væntingar um að Ísland yrði ekki sett á bannlista Rússlands“.
Hvaða væntingar voru það? Um hvaða menn er hann að tala og á hverju byggðu þeir raunhæfar væntingar sínar?
Forsætisráðherra segir að ákvörðun um þátttöku Íslands í auknum og endurnýjuðum refsiaðgerðum gegn Rússlandi hafi ekki verið „rædd sérstaklega“  í ríkisstjórninni. Í dag segir hann þetta vera mál af áður óþekktri stærðargráðu sem „hafi tuttugu sinnum verri áhrif “ á Ísland en önnur lönd.
Af hverju var þetta ekki rætt í ríkisstjórninni fyrst þetta er svo alvarlegt? Hvers lags slóðaskapur og vanræksla er þetta?
Báðir formenn hægriflokkanna segja að Íslendingar séu varla „eiginlegir þátttakendur“ í refsiðagerðum Vesturlanda gegn Rússlandi.
Hvað eiga þeir við? Erum við þátttakendur í refsiaðgerðunum – eða ekki?
Báðir undirstrika þeir svo að „ekki komi til greina að Ísland dragi til baka stuðning sinn við efnahagsþvinganir eða lýsi yfir hlutleysi“ í aðgerðum Vesturlanda gegn Rússum.
Formaður utanríkismálanefndar Alþingis, atvinnuvegaráðherrra og þessi dæmalausi utanríkisráðherra okkar hafa síðan allir sagt að Ísland muni áfram standa að og styðja allar aðgerðir gegn Rússlandi hér eftir sem hingað til. Þar verði engin breyting á.
Fjármálaráðherra segir það „skjóta skökku við“ að Ísland verði fyrir þvingunum af hálfu Rússa fyrir það eitt að stilla sér upp með „bandamönnum“ sínum gegn Rússum!! Hann segir að stuðningur Íslands við refsiaðgerðirnar gegn Rússum sé eitthvað sem hafi „undið upp á sig“ og íslensk stjórnvöld hafi bara í einhverju hugsunar- og eða andvaraleysi haldið áfram að „taka undir“.
Fleiri dæmi má léttilega taka af dæmalausu ferli þessa máls af hálfu ríkisstjórnar hægriflokkanna. Þar ber allt að sama brunni. Vanrækslan og vanhæfnin er æpandi.
Það er fullt tilefni til fyrir Alþingi að láta gera rannsókn á aðkomu ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra á þá stöðu sem upp er komin vegna þessa máls.
Síðast en ekki síst þarf að finna ráðherrum ríkisstjórnarinnar önnur störf sem falla betur að hæfileikum þeirra og getu.
Þessi hörmung getur ekki haldið svona áfram.