Viðskiptabann Rússa á Ísland var óumflýjanlegt. Það er afleiðing af skuldbindingum Íslands gagnvart öðrum þjóðum, m.a. að axla ábyrgð á sameiginlegum ákvörðunum.
Sjálfur er ég heldur andsnúinn viðskiptabönnum og þvingunum af því tagi sem Ísland hefur í samstarfi við aðrar þjóðir beitt Rússa. Ekki þó af viðskiptalegum forsendum heldur einfaldlega vegna þess að afleiðingarnar lenda nær alltaf á þeim sem síst skyldi og mest á þeim sem veikast standa fyrir. Með sama hætti mun viðskiptabann Rússa á Ísland lenda á okkur öllum eins og bent hefur verið á.
Katrín Jakobsdóttir bendir réttilega á að nú sé boltinn hjá stjórnvöldum og það sé þeirra að bregðast við, enda er um stórt mál að ræða gagnvart almenningi í landinu.
Í stuttu máli er um þrennt að velja af hálfu íslenskra stjórnvalda:
1. Að standa við skuldbindingar sínar gagnvart öðrum þjóðum um áframhaldandi refsiaðgerðir gagnvart Rússum. Sem sagt að negla viðskiptabannið fast.
2. Að slíta sig frá þessu samstarfi og komast þannig undan skuldbindingum og taka afleiðingunum sem það gæti haft fyrir Ísland á alþjóðavettvangi.
3. Að gera ekki neitt.
Ég veðja á að stjórnvöld velji leið þrjú.
Það er þeirra sérgrein.