Pólitískur hrottaskapur

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að sér sé nokkuð sama um uppruna peninga sem koma til Íslands í alls konar verkefni, svo framarlega sem þeir komi ekki innan frá löndum ESB.
Gunnar Bragi og ríkisstjórnin öll vilja líka leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Það virðist einnig vera almenn skoðun innan framsóknarflokksins, sem áður kenndi sig við samvinnuhugsjónina, að fé til aðstoðar fólki í neyð sé illa varið.
Ríkisstjórn hægriflokkanna boðar áframhaldandi niðurskurð í framlögum til þróunaraðstoðar þrátt fyrir ákvörðun Alþingis um að auka framlög jafnt og þétt á næstu árum.
Því er svo fagnað sérstaklega ofan úr Hádegismóum að okkur Íslendingum hafi verið forðað frá því að leggja okkar af mörkum til þjóða í neyð. Þar nær lágkúran enda oftast nær sínum hæstu hæðum.
Kannski er þetta allt merki um að Íslendingar séu kaldlynd og sjálfhverf þjóð enda er það þjóðin sem kýs svona stjórnmálamenn til valda. Hvað sem því líður þá er framganga þingmanna og ráðherra hægriflokkanna í þessum málum ekkert minna en pólitískur hrottaskapur gagnvart okkar minnstu bræðrum og systrum.
Og er þá vægt til orða tekið.