Hagsmunir þeirra efnameiri eru forgangsmál

Þetta eru í grunninn ágætar pælingar hjá Agli Helgasyni. Ytri aðstæður í þjóðfélaginu hafa batnað jafnt og þétt á undanförnum árum. Útflutningsgreinarnar mala gull, sjávarútvegurinn á hvert metárið af öðru og ferðamennskan sömuleiðis. Hagvöxtur er jafn og þéttur eins og verið hefur frá árinu 2010, atvinnuástand ágætt, a.m.k. ef borið er saman við önnur lönd.
Ríkisstjórn hægriflokkanna er skiljanlega afar óvinsæl. Það er vegna þess að hún nýtir ekki góðar ytri aðstæður til hagsbóta fyrir allan almenning. Þess í stað ganga báðir stjórnarflokkarnir grímulaust erinda efnafólks og stórfyrirtækja.
Það er t.d. ekkert jákvætt við það að afnema gjöld og tolla eða lækka skatta þegar það er gert á kostnað velferðar-, heilbrigðis- og menntamála. Ríkisstjórnin boðar áframhald á þeirri vegferð.
Það er ekki rétt hjá Agli að það sé „myndarlegur afgangur af ríkissjóði“. Samkvæmt ríkisreikningi 2014 var hann um 46 milljarðar, að lang -stærstum hluta vegna einskiptisaðgerða, arðgreiðslna úr Landsbankanum og fleira slíks. Greiðsluafkoma ríkissjóðs á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs sýnir aðra stöðu.
Það breytir því hins vegar ekki að ríkisstjórn hægriflokkanna gætir fyrst og síðast hagsmuna þeirra efnameiri á kostnað hinna og velferðarkerfisins. Þannig ríkisstjórnir eru alltaf vondar eins og við höfum mörg sorgleg dæmi um í lýðveldissögunni.
Þess vegna þarf að koma þessari ríkisstjórn frá.
Sem fyrst.