Til eru þeir sem trúa því að mótmæli vegna Hrunsins hafi verið skipulögð og jafnvel fjármögnuð af hálfu pólitískra andstæðinga sjálfstæðisflokksins. Í þeim hópi er m.a. þingflokksformaður flokksins og fyrrverandi formaður hans. Hvorugt þeirra trúir því að fólk hafi af sjálfsdáðum haft rænu á að mótmæla stjórnvöldum og afleiðingum Hrunsins á lífið í landinu. Þau líta á almenning sem viljalaust verkfæri stjórnmálamanna.
Í fljótu bragði man ég þó aðeins eftir einum formanni stjórnmálaflokks sem á þeim tíma hvatti til mótmæla. Það gerði Bjarni Benediktsson í bréfi til samflokksmanna sinna þann 30. september 2011. En það var ekki hvatning til almennings til að mótmæla versnandi lífskjörum í kjölfar Hrunsins heldur flokksbundinna sjálfstæðismanna enda er bréfið á þá stílað. Bréfið var því kristaltær pólitísk herkvaðning til félaga í Flokknum og markmiðið aðeins eitt: að koma Flokknum aftur til valda.
Í bréfinu hvatti Bjarni skráða félaga í sjálfstæðisflokknum til að mæta á Austurvöll við þingsetningu og mótmæla þáverandi ríkisstjórn. Í því segir Bjarni m.a. að „óljóst er hvernig löggæslu við þingsetninguna verður háttað“ og gefur þannig undir fótinn með að félagar í sjálfstæðisflokknum geti nýtt sér það í mótmælunum, jafnvel þó svo að mælst sé til að gengið sé „friðsamlega til verks“ – eins og það er orðað. Og verkið sem Bjarni vildi að félagar í Flokknum tækju að sér var að koma þáverandi ríkisstjórn frá og Flokknum aftur í stjórnarráðið. Það verk átti að vinna í skjóli þess að löggan myndi kannski ekki verja ríkisstjórnina við þingsetninguna.
Skilaboðin voru því skýr: Löggan mætir ekki. Fellum ríkisstjórnina. Komum flokknum aftur til valda.
Hér fyrir neðan má lesa herkvaðningu formanns sjálfstæðisflokksins til flokksbundinna félaga, dagsett 30. september 2011:
„Kæri samherji.
Á morgun 1. október verður Alþingi Íslendinga sett. Það skapar nýtt tækifæri til að leiða Ísland inn á réttar brautir.
Stefnu- og árangursleysi ríkisstjórnarinnar hefur reynst þjóðinni dýrkeypt.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur frá upphafi kjörtímabilsins hafnað stefnu ríkisstjórnarinnar og er skýr valkostur. Við höfum staðið fyrir tillögum til að bæta hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Okkar leið hefur verið sú að skapa störf og segja atvinnuleysinu stríð á hendur. Við viljum lækka skatta, auka fjárfestingar, framkvæmdir og verðmætasköpun. Hér þarf að auka hagvöxt og bæta lífskjörin.
Við vitum að tækifærin, lausnirnar og leiðir til uppbyggingar eru til staðar. Þess vegna mun þingflokkur sjálfstæðismanna leggja fram enn metnaðarfyllri efnahagsáætlun við upphaf þingsins sem nú gengur í garð og leggja sitt af mörkum til þess að rjúfa þá stöðnun sem hér hefur ríkt alltof lengi.
Verði það ekki gert er hætt við að fólk missi trú á framtíðina, fyllist vantrú á að geta náð endum saman og búið við mannsæmandi lífskjör.
Boðað hefur verið til mótmæla við þingsetninguna á laugardaginn. Lögreglumenn hafa gefist upp á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og óljóst er hvernig löggæslu við þingsetninguna verður háttað. Ég hvet fólk til samstöðu með lögreglunni með því að sýna störfum þeirra virðingu. Það er sjálfsagt að halda stefnumálum sínum á lofti við þingsetninguna, en ég bið alla þá sem það ætla að gera að ganga friðsamlega til verks.
Krafa Sjálfstæðisflokksins er skýr. Það þarf nýja stjórnarstefnu, ryðja þarf nýjar brautir og boða á tafarlaust til kosninga.“