Margir bundu vonir við að Einar Kristinn Guðfinnsson yrði góður þingforseti. Þær vonir hafa að engu orðið. Hann er sami gamli flokkshesturinn sem hann hefur alltaf verið og setur flokkinn sinn ævinlega framar öðru. Steininn tók svo úr á dögunum þegar Einar frestaði atkvæðagreiðslu í þinginu, ekki vegna þess hve fáir þingmenn voru á staðnum, heldur vegna þess hve fáir stjórnarliðar voru í húsi. Forseti þingsins frestaði því atkvæðagreiðslu þar sem hann sá fram á að niðurstaðan yrði flokknum hans ekki að skapi. Þetta er fáheyrt og þingforseta til skammar.
Össur Skarphéðinsson bendir á það augljósa að Einar þingforseti hefur misst tökin á stjórn þingsins og ætti því að íhuga afsögn. Geri hann það ekki hlýtur stjórnarandstaðan að leggja fram vantraustsyfirlýsingu á forseta þingsins, þó ekki væri nema til að það sé algjörlega á hreinu í hvers umboði hann situr á forsetastóli.
Þangað til situr hann líka í þeirra umboði.