Orð Magnúsar Péturssonar ríkissáttasemjara (link is external) um stöðuna í kjaraviðræðunum hafa vakið verðskuldaða athygli. Magnús segir að stór ágreiningsmál í þjóðfélaginu hafi neikvæð áhrif á kjaraviðræðurnar. Orðrétt sagði Magnús í viðtali við RÚV: „Ég held að það sé heilmikil ólga í samfélaginu. Við sjáum átök hér um fjölmörg málefni, ekki bara um kaupið heldur um ýmis önnur atriði í samfélaginu. Það er skipting auðlindanna, arðurinn af auðlindum, hvernig á að skipta því. Það eru átök eða ágreiningur milli hópa; hver er betur settur en annar. Þannig að það er ágreiningur um fjölmargt í samfélaginu, sem að ég er alveg sannfærður um að hefur áhrif á stöðu kjaraviðræðna.“
Þetta eru þung orð sem ber að taka alvarlega frá manni í hans stöðu. Það alvarlegasta er þó að ríkissáttasemjari er beinlínis að segja að yfirlýst stefna stjórnvalda og átökin um hana sé skaðleg og ein meginástæðan fyrir þeirri ólgu sem er í samfélaginu. Það er stefna hægriflokkanna að ráðstafa sameiginlegum auðlindum í andstöðu við vilja þjóðarinnar. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að létta sköttum og álögum af þeim sem mest hafa. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að einkavæða fjámálastofnanir og fyrirtæki í sameiginlegri eigu okkar allra. Svo dæmi séu tekin.
En hvað er þá ríkissáttasemjari að segja í raun og veru?
Hann er að benda á það augljósa: Á meðan stjórnarstefnan er sú sem hún er verður engin sátt í samfélaginu.
Hvað gerum við þá?