Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður framsóknarflokksins, hét því í aðdraganda kosninganna 2013 að afnema verðtrygginguna. Reyndar stillti hann málum þannig upp að fólk hefði aðeins um tvennt að velja: framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn. Hann sagði kjósendum að þetta væri í rauninni sáraeinfalt mál og aðeins þyrfti viljann til verksins. Framsóknarflokkurinn fékk góða kosningu út á loforð sín og téður Sigmundur er forsætisráðherra.
Nú er líka komið annað hljóð í strokkinn.
Í viðtali við Bylgjuna gerir hann athugasemdir við kröfur launafólks og segist nú hafa „áhyggjur af því að ef vinnudeilan leiði til verðbólgubáls muni það hafa áhrif á afnám verðtryggingarinnar.“ Sigmundur Davíð ætlar því að gera launafólk ábyrgt fyrir því hvort hann geti staðið við kosningaloforð sitt um afnám verðtryggingar. Nú stendur valið ekki lengur um framsókn eða verðtryggingarstjórn, heldur um að viðhalda lágum launum eða verðbólgu.
Loddaraskapnum eru engin takmörk sett.