Þolinmæðina þrýtur

 Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er þrautreynd þingfréttakona RÚV. Hún er í góðu trúnaðarsambandi við stjórnmálamenn úr öllum flokkum sem gerir henni létt fyrir að greina pólitísku línurnar í stórum málum sem smáum. Jóhanna Vigdís sagði í Morgunútgáfunni á RÁS 2 (eftir kl. 08:00) í morgun að stóra mál samfélagsins í dag væri staðan á vinnumarkaðinum, kjaradeilurnar og það ætti þingið fyrst og síðast að vera að ræða. Síðar í sama þætti tóku þau Þórður Snær Júlíusson og Fanney Birna Jónsdóttir efnislega undir með Jóhönnu Vigdísi og sögðust lítið skilja í forgangsröð þingsins þessa dagana.
Þetta er auðvitað hárrétt mat hjá Jóhönnu Vigdísi (og þeim öllum) sem hún byggir nær örugglega á samtölum sínum við þingmenn, jafnt úr stjórn sem stjórnarandstöðu, auk þess sem hún skynjar eins og allir aðrir landsmenn nauðsyn þess að leysa þau mál.
Það eru allir að missa þolinmæðina.