Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins, vill gera breytingar á starfsemi þingsins í þeim tilgangi að „gera starf þingsins skilvirkara og auka afköst.“
Gott og vel.
En Alþingi er ekki framleiðslufyrirtæki þar sem afköst eru metin í fjölda afgreiddra mála. Alþingi setur lög og það eru gæði laga sem skipta öllu máli en ekki fjöldi þeirra eða hve hratt þingið afgreiðir þau.
Ef formaður sjálfstæðisflokksins vill gera umbætur á starfsemi þingsins, sem ég efast ekki um að hann vilji, þá væri lag að auka samstarf þvert á flokka um stór mál og leita lausna í stað þess að hleypa öllu reglulega og vísvitandi í bál og brand. Lausnin felst ekki í því að takmarka umræður og ganga svo til atkvæða. Það jafngildir því að svipta minnihluta þingsins umboði sínu og er hvorki lýðræðislegt né réttlátt.
Umbætur í störfum þingsins felast því öðru fremur í því að auka samstarf og samvinnu þvert á flokka í stað yfirgangs og ofbeldis meirihluta gegn minnihluta.
Sem er einmitt það sem er nú að gerast á Alþingi.