Þrælar úreltrar hugmyndafræði

Á vefsíðu morgunblaðsins, málgagns hægriflokkanna, segir að ríkisstjórnin sé að hugsa um að lækka skatta og fella niður þrepaskipta skattkerfið í þeim tilgangi að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Þessu er auðvelt að trúa.
En skattalækkanir hafa aldrei gagnast fólki með lág laun. Ástæðan er einföld.
* Skattar eru lágt hlutfall af lágum launum.
* Skattalækkun kallar á niðurskurð í opinberum rekstri sem aftur kallar á aukin útgjöld þeirra sem þurfa á opinberri þjónustu að halda. Það kemur verst niður á þeim sem hafa lág laun.
Hægriflokkarnir vilja ekki þrepaskipt skattkerfi og studdu ekki innleiðingu þess á síðasta kjörtímabili. Ástæðan er einföld.
* Í þrepaskiptu skattkerfi  hækka skattar samhliða hærri tekjum sem er í andstöðu við hugmyndafræði hægrimanna. Þeir vilja lága, flata skatta á öll laun.
* Þrepaskipt skattkerfi leiðir til og hefur þegar leitt til aukins jöfnuðar sem er sömuleiðis í andstöðu við hugmyndafræði þeirra.

Hægristjórnin ætlar því með tillögum sínum að reyna að slá tvær flugur í einu höggi: lækka skatta og grafa undan þrepaskipta skattkerfinu.
Þannig á að reyna aftur að gera launafólk að þrælum hugmyndafræði sem kastað var á ruslahaug sögunnar í Hruninu haustið 2008.