Það er gjarnan vísað til þess í yfirstandandi kjaradeilu að kennarar hafi fengið miklar kjarabætur í síðustu samningum. Atvinnurekendur tala um að kjarasamningar kennara hafi verið af allt annarri „stærðargráðu“ en unnið hafi verið með og forystufólk úr röðum launþega um „háskóla- og hálaunastéttir“ af sama tilefni.
Þannig tala aðeins þeir sem annaðhvort vita ekki betur eða kjósa að fara með rangt mál.
Grunnlaun kennara sem útskrifast í vor og hefur störf á næsta skólaári eru samkvæmt kjarasamningum kr. 389.760- (bls. 25 - launaflokkur 233). Þetta eru grunnlaun eftir 5 ára háskólanám með mastersgráðu. Í síðustu kjarasamningum gáfu kennarar frá sér allt að 7 kennslustundum í aldurstengdan kennsluafslátt gegn launahækkun. Þeir sem sagt samþykktu að kenna meira en kveðið var á um í samningum þeirra gegn greiðslu – að sjálfsögðu.
Það kann kannski einhverjum að þykja kennarar tilheyra hálaunastétt og þeir hafi með kjarasamningum sínum ógnað efnahagslegum stöðugleika í landinu. En fyrir því hafa engin rök verið færð.
Skiljanlega, enda eru þau ekki til.