Það versnar og versnar

 Formaður sjálfstæðisflokksins talar um það í fullri alvöru að skerða þurfi verkfallsrétt launafólks og segist vera þeirrar skoðunar að jöfnuður í samfélaginu  sé orðinn of mikill. Forsætisráðherrann sakar stjórnarandstöðuna um að leka upplýsingum sem komið hefur í ljós að hann eða hans fólk gaf fjölmiðlum. Þingmaður framsóknarflokksins telur ekkert athugavert við það nú frekar en áður að beita sér fyrir því sem þingmaður að úthluta sér og fjölskyldu sinni gríðarlegum verðmætum. Þingmaður sjálfstæðisflokksins sem uppvís varð að því að segja þingi og þjóð ósatt sem ráðherra mun setjast að nýju á þing á morgun. Ráðherra sjálfstæðisflokksins verður uppvís að tengslum við stórfyrirtæki sem hljóta að verða að teljast á mörkum þess að vera óeðlileg. Þingmaður sjálfstæðisflokksins vill að launafólk verði sektað fyrir að fara í verkföll og þingmaður framsóknarflokksins tekur undir það með honum.
Hér er aðeins fátt eitt til talið.
Ég hef fylgst lengi með íslenskum stjórnmálum og verið þátttakandi í þeim bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstiginu. Ég man ekki eftir öðru eins ástandi í stjórnmálum og í dag. Ég held að það séu engin fordæmi fyrir annarri eins óreiðu og upplausn.
Og það versnar bara og versnar.